Moody's segir Aaa einkunnir Íslands á krossgötum
Í frétt Moody’s sem birt var í morgun segir eftirfarandi í lauslegri þýðingu:
Aaa lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands eru á krossgötum, samkvæmt nýrri skýrslu matsfyrirtækisins Moody’s Investors Service. Í skýrslunni er ekki tilkynnt nein breyting lánshæfiseinkunnanna.
Að áliti Moody’s kemur Ísland vel út í samanburði við mörg önnur þróuð iðnríki sem einnig hafa lánshæfiseinkunnirnar Aaa þegar litið er til lágrar skuldastöðu hins opinbera á Íslandi, stjórnkerfis sem byggist á sáttaviðleitni og skilvirkra stofnana. Á móti kemur að íslenska ríkið er hugsanlega berskjaldaðra gagnvart trúverðugleikabresti (e. confidence crisis) en önnur ríki með Aaa-einkunnir vegna mikilla alþjóðlegra umsvifa stórra íslenskra viðskiptabanka.
„Ísland nýtur hárra tekna á mann og háþróaðra stjórnar-, hag- og samfélagsstofnana, aldursskipting er hagstæð og lífeyrissjóðir fjármagnaðir að fullu“, segir sérfræðingur Moody’s, Joan Feldbaum-Vidra, sem er höfundur skýrslunnar. „Hlutfallslega eru skuldir hins opinbera minni en helmingur meðaltalsskulda hins opinberra í ríkjum evrusvæðisins.“
Þrátt fyrir þetta hefur hið mjög skuldsetta hagkerfi ekki farið varhluta af aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eins og sést á nýlegri hækkun vaxtaálaga. Áframhaldandi alþjóðlegur vöxtur bankakerfisins hefur leitt til þess að ófyrirséðar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins hafa vaxið upp fyrir það sem æskilegt (e. comfort levels) getur talist.
Í skýrslu Moody’s eru ítarlega skýrðar forsendurnar fyrir Aaa-einkunnum Íslands og metin er geta stjórnvalda og banka til að standast erfiðar aðstæður.
„Samkvæmt greiningu Moody’s er líklegt að íslensk stjórnvöld geti mætt lausafjárbresti, varið innstæðueigendur og forðast greiðsluþrengingar jafnvel við sérstaklega erfið skilyrði (e. even in a quite extreme scenario),“ segir Feldbaum-Vidra. „Á undanförnum árum hefur Moody’s fylgst grannt með vexti erlendra skuldbindinga bankakerfisins. Að því gæti komið að slíkur vöxtur myndi reyna á getu stjórnvalda til að takast á við kreppu, að minnsta kosti með hætti sem samræmdist gildandi Aaa-einkunnum.“
Sérfræðingur Moody’s segir að auka mætti svigrúm stjórnvalda til að glíma við áhrif kreppu í framtíðinni með viðameiri reglusetningu um lausafé banka eða með öðrum kerfisbreytingum sem milduðu hlutverk stjórnvalda sem lánveitanda til þrautavara í erlendri mynt.
„Allar slíkar breytingar myndu draga úr fjármálalegri áhættu stjórnvalda” segir sérfræðingur Moody’s.“
Skýrslan heitir: Aaa einkunnir Íslands á krossgötum
Nánari upplýsingar veitir Sturla Pálsson framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.
Sjá hér skýrslu Moody's:
Aaa einkunnir Íslands á krossgötum
Nr. 4/2008
28. janúar 2008