Breytingar á reglum Seðlabanka Íslands
Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að gera nokkrar breytingar á reglum bankans. Ekki er um að ræða miklar breytingar en búist við því að þær liðki nokkuð fyrir viðskiptum á fjármálamörkuðum, einkum á millibankamarkaði í íslenskum krónum.
Þá hefur verið ákveðið að Seðlabankinn gefi út framseljanleg innstæðubréf en við það eykst framboð tryggra skammtímaverðbréfa á markaði.
Bindiskylda
Í nýjum reglum um bindiskyldu er gert ráð fyrir því að skuldbindingar erlendra útibúa íslenskra banka myndi ekki grunn bindingar. Breytingin tekur gildi þegar reglulegri upplýsingasöfnun um efnahagsliði erlendra útibúa íslenskra fjármálafyrirtækja hefur verið komið á.
Tilgangur breytingarinnar er að samræma reglurnar þeim sem gilda hjá Evrópska Seðlabankanum svo sem verða má. Þótt tölur liggi ekki fyrir má ætla að breytingin létti talsvert á bindiskyldu þeirra banka sem starfrækja útibú erlendis.
Veðlán Seðlabankans
Varðandi hæf bréf til tryggingar í viðskiptum við Seðlabankann hefur verið ákveðið að nægilegt sé að sértryggð skuldabréf hafi tiltekið lánshæfismat en fallið frá því skilyrði að útgefandi slíkra bréfa hafi lánshæfismat. Breytingin getur auðveldað smærri fjármálafyrirtækjum að afla sér lausafjár gegn tryggum veðum.
Innstæðubréf
Áformað er gefa út sérstök innstæðubréf Seðlabankans með eftirfarandi einkennum:
Hjá Verðbréfaskráningu verður skráður allstór flokkur og bréf úr honum boðin fjármálafyrirtækjum til sölu á sömu dögum og regluleg veðlán eru veitt.
Bréfin verða framseljanleg til nafngreindra aðila.
Einingaverð: 100 m.kr.
Gjalddagi höfuðstóls: 182 dögum (26 vikum) eftir útgáfudag.
Vextir: Breytilegir, þó fastir í viku í senn, hinir sömu og auglýstir eru á innstæðubréfum. Greiddir vikulega.
Þessi bréf eru ólík þeim sem þegar eru í boði að því leyti að vera rafrænt skráð og framseljanleg.
Talið er að mikil eftirspurn sé eftir stuttum tryggum verðbréfum og er þess vænst að með þessum bréfum megi koma til móts við hana. Í fyrsta flokki verða gefin út bréf allt að 50 milljörðum króna.
Samhliða þessu er greint frá því í sérstakri tilkynningu í dag að ríkissjóður gefur út ríkisbréf í vikunni með gjalddaga eftir um níu mánuði.
Nánari upplýsingar veitir Eiríkur Guðnason bankastjóri Seðlabanka Íslands í síma 569 9600.
Nr. 11/2008
25. mars 2008