logo-for-printing

17. apríl 2008

Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs lækkaðar vegna erfiðra skilyrða við fjármögnun

Í dag gaf alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's út tilkynningu um lánshæfi íslenska ríkisins. Tilkynningin fylgir hér í lauslegri þýðingu:

„Matsfyrirtækið Standard & Poor's greindi frá því í dag að það hefði lækkað lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs á erlendum langtímaskuldbindingum í A úr A+ og langtímaskuldbindingum í íslenskum krónum í AA- úr AA. Einkunnir fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt A-1 og íslenskum krónum A-1+ voru staðfestar. Samhliða þessu mati lækkaði S&P lánshæfiseinkunn Íbúðalánasjóðs fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt í A úr A+ og skuldbindingar sjóðsins í innlendri mynt lækkuðu úr A+/A-1 úr AA-/A-1+. Matið á lánshæfisþaki (e. T&C assessment) hefur einnig verið lækkað í AA úr AA+. Bæði langtímaeinkunnir ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs hafa verið teknar af athugunarlista en einkunnirnar fóru á hann 1. apríl 2008 og eru horfurnar nú neikvæðar fyrir fyrrgreindar einkunnir.

Lækkun á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspeglar aukin viðfangsefni í hagstjórn (e. economic policy challenges) og má að miklu leyti rekja til þrengra aðgengis íslenskra viðskiptabanka að erlendu lánsfé. Íslenskir bankar hafa reitt sig á erlenda markaðsfjármögnun og mun aukinn fjármögnunarkostnaður draga úr hagnaði þeirra og vexti. Að hluta til vegna mikils vaxtar þeirra sjálfra og aukinna umsvifa ýmissa innlendra athafnamanna, hafa hreinar erlendar skuldir fjármálakerfisins aukist og eru nú 362% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar árið 2007 en þetta hlutfall var 161% árið 2003. Innlendar skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa aukist og nema nú 384% af VLF en voru 130% árið 2003. Þessi hlutföll eru meðal þeirra hæstu hjá ríkjum með lánshæfiseinkunn.

Aukinn fjármögnunarkostnaður bankakerfisins ásamt 27% lækkun á gengi krónunnar, eykur líkurnar á því að samdráttur í hagkerfinu verði meiri og lengri en Standard & Poor's gerði ráð fyrir þegar fyrirtækið lækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs 22. desember 2006. Jafnvel þótt miklar hagsveiflur hafi einkennt íslenska hagkerfið í gegnum tíðina hafa skuldir þjóðarbúsins náð nýjum hæðum. Samanlagðar skuldir heimila og fyrirtækja hafa vaxið og námu meira en 400% af vergri landsframleiðslu í árslok 2007 en voru 184% af VLF árið 2004. Gert er ráð fyrir að innlend eftirspurn dragist verulega saman á næstu tveimur árum gæta mun áhrifa af lækkun krónunnar í verðbólguskoti, sem bæði dregur úr rauntekjum og eykur greiðslubyrði verðtryggðra húsnæðislána. Á sama tíma mun draga úr framboði af lánsfé á hagkvæmum kjörum jafnhliða því að íslenskir bankar standa frammi fyrir vaxandi fjármagnskostnaði og auknum erfiðleikum við öflum erlends lánsfjár. Útflutningur mun að einhverju leyti vega upp áhrifin af samdrætti innlendrar eftirspurnar en samdráttarskeið virðist vera óumflýjanlegt.

Standard & Poor's telur að samsetning erlendra skulda þjóðarbúsins muni breytast í ljósi takmarkaðs aðgengis íslenskra banka að erlendu lánsfé og komandi samdráttarskeiðs. Matsfyrirtækið telur að íslensku bankarnir muni minnka umsvif sín og þar með draga úr þörf sinni fyrir erlent lánsfé, en á sama tíma munu erlendar skuldir hins opinbera aukast. Matsfyrirtækið gerir ráð fyrir verulegum fjárlagahalla í niðursveiflunni og telur að heildarskuldir hins opinbera vaxi úr 28% í 36% af vergri landsframleiðslu, en skuldabyrðin gæti vaxið mun hraðar ef stjórnvöld neyðast til að veita viðskiptabönkunum beina aðstoð. Lánshæfiseinkunnir Íbúðalánasjóðs hafa verið lækkaðar og endurspegla lækkaðar einkunnir ríkissjóðs en jafnframt versnandi horfur á virði eigna á húsnæðismarkaðnum.

Horfur
Neikvæðar horfur endurspegla hættu á versnandi stöðu. Matsfyrirtækið gæti aftur breytt horfunum í stöðugar ef bankarnir eða stjórnvöld grípa til aðgerða sem endurvekja traust markaðarins og leiða til þess að áhættuálag íslensku bankanna lækkar. Ef bönkunum tekst hins vegar ekki að tryggja fjárhagslega stöðu sína (erlenda og innlenda lausafjárstöðu, hagnað og gæði eigna) mun viðkvæm erlend staða þjóðarbúsins festast í sessi og gæti leitt til frekari lækkunar lánshæfiseinkunnar um eitt þrep.“

Nánari upplýsingar veitir skrifstofa bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Nr. 16/2008
17. apríl 2008

 

Valdir hagvísar S&P

Til baka