Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á fyrsta ársfjórðungi 2008
Í dag verða birt á heimasíðu Seðlabanka Íslands bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2008 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.
Viðskiptajöfnuður var óhagstæður um 56,7 ma.kr. á fyrsta fjórðungi ársins sem er talsvert lægra en á síðasta fjórðungi. Talsvert minni halli þáttatekna og á þjónustujöfnuði skýra þessa breytingu að mestu en aukinn halli af vöruviðskiptum vegur nokkuð á móti. Ávöxtun erlends hlutafjár í eigu Íslendinga veldur mestu um að jöfnuður þáttatekna batnaði á milli fjórðunga. Nokkur hækkun varð einnig á gjaldahlið þáttateknanna sem skýrist að mestu leyti af endurfjárfestum hagnaði erlendra aðila á Íslandi. Lækkun á gengi krónunnar á fyrsta ársfjórðungi hefur veruleg áhrif á flesta liði í uppgjöri greiðslujafnaðarins.
Hreint fjárinnstreymi nam 135,3 ma.kr. á tímabilinu. Bein fjárfesting innlendra aðila erlendis jókst um 36 ma.kr. en á síðasta fjórðungi 2007 dróst hún saman um 275 ma.kr. Bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi dróst saman og sama máli gegndi um fjárfestingu þeirra í innlendum markaðsskuldabréfum.
Skekkjuliður í ársfjórðungsuppgjörinu er fremur stór en vonir standa til að hann minnki eftir því sem nánari upplýsingar verða tiltækar. Reynsla Seðlabankans er sú að neikvæður skekkjuliður skýrist oftast af vanmati á fjármagnshreyfingum, þótt hitt þekkist einnig að síðar berist nákvæmari upplýsingar um breytingar viðskipta og tímasetningu þeirra.
Hrein staða við útlönd var neikvæð um 2.211 ma.kr. í lok fyrsta ársfjórðungs og versnaði um 628 ma.kr. á ársfjórðungnum. Þessi þróun stafar einkum af veikingu gengis krónunnar, þ.e. hækkun á verði erlendra gjaldmiðla um 29,6% samkvæmt gengisskráningarvísitölu sem endurspeglast í samsvarandi hækkun stöðutalna um erlendar eignir og skuldir. Einstakar myntir, t.a.m. evra hækkuðu þó talsvert meira eða um tæplega 33%. Erlendar eignir námu 7.758 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 9.970 ma.kr.