logo-for-printing

30. september 2008

Matsfyrirtækið Standard & Poor´s lækkar lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs

Í gær gaf alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's út tilkynningu um lánshæfi íslenska ríkisins. Hún fylgir hér með í lauslegri þýðingu:


Rökstuðningur

Matsfyrirtækið Standard & Poor’s lækkaði í gær lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs fyrir langtíma- og skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt í A-/A-2 úr A/A-1 og í íslenskum krónum í A+/A-1 úr AA-/A-1+. Einnig hefur Standard & Poor’s lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs á langtímaskuldbindingum til athugunar með neikvæðum vísbendingum (e. implications). Auk þess var mat þeirra á skipti- og breytanleika (e. transfer and convertibility assessment) landsins lækkað í AA- úr AA.

Jafnframt lækkaði matsfyrirtækið lánshæfiseinkunnir Íbúðalánasjóðs í erlendri mynt í A-/A-2 úr A/A-1 og á langtímaskuldbindingum í íslenskum krónum í A úr A+. Einkunnin á skammtímaskuldbindingum í íslenskum krónum var staðfest A-1. Þá hefur Standard & Poor’s til athugunar lánshæfiseinkunnir sjóðsins á langtímaskuldbindingum til athugunar með neikvæðum vísbendingum.

Lækkanirnar koma í kjölfarið á tilkynningu stjórnvalda um að ríkissjóður hefði lagt Glitni banka til hlutafjárframlag að fjárhæð 600 milljóna evra, eða 84 ma.kr, sem er um 5,9% af vergri landsframleiðslu. Glitnir er einn þriggja stærstu viðskiptabanka á Íslandi. Ákveðið var að grípa til þessarar aðgerðar í ljósi þröngrar lausafjárstöðu Glitnis, en þar með verður ríkissjóður eigandi að 75% hlutafjár í bankanum.

Þessi aðgerð undirstrikar ítrekaðar áhyggjur Standard & Poor’s af háum erlendum skuldbindingum íslenska fjármálakerfisins og þeim óbeinu ábyrgðum sem í þeim felast fyrir ríkissjóð. Vegna þess að íslensku bankarnir hafa fjármagnað vöxt sinn erlendis sem og nokkurra innlendra athafnamanna, þá hafa hreinar erlendar skuldir fjármálakerfisins aukist úr 161% af útflutningstekjum árið 2003 í 362% árið 2007. Á sama tímabili hafa innlendar skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu vaxið úr 130% í 384%. Þessar tölur eru meðal þeirra hæstu meðal ríkja sem hafa lánshæfiseinkunn.

Vegna hagstæðrar skuldastöðu ríkissjóðs (áætluð 12,5% af vergri landsframleiðslu á árinu 2008 og áður en kom að hlutafjárframlaginu til Glitnis) og hárra innstæðna hans við Seðlabankann (rúmlega 27% af VLF í lok ágústmánaðar) hafa stjórnvöld bolmagn til að aðstoða Glitni á ofangreindan hátt. Auk þess ætti ríkissjóður að geta aðstoðað ef upp kæmi þörf fyrir frekari skammtíma lausafjárstuðning við fjármálakerfið. Sökum stærðar og uppbyggingar íslenska fjármálakerfisins verður það áfram stór óbein ábyrgðarskuldbinding fyrir ríkissjóð, sérstaklega í ljósi ástandsins á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og óvissu með þróun mála á Íslandi, gæti íslenskum bönkum reynst erfiðara um vik að tryggja erlenda fjármögnun.


Horfur

Ákvörðun S&P að hafa lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs til athugunar með neikvæðum vísbendingum endurspeglar þær hættur sem eru ríkjandi um þessar mundir. Ef ástandið á íslenskum fjármálamarkaði (þ.e. innlend og erlend lausafjárstaða, arðsemi og gæði eigna) fer versnandi og það útheimtir frekari ríkisstuðning og grefur þar með undan skuldastöðu landsins, gæti lánshæfiseinkunn ríkissjóðs lækkað í kjölfarið. Hins vegar gætu lánshæfiseinkunnirnar haldist stöðugar ef áhætta ríkissjóðs vegna bankakerfisins minnkar, annað hvort með innkomu erlendra aðila í kerfið eða með bættri fjármögnun erlendis frá.


Nánari upplýsingar veitir skrifstofa bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Skýrsla Standard & Poor's

Nr. 31/2008
30. september 2008

Til baka