Veðlán Seðlabanka Íslands
Líkt og aðrir seðlabankar veitir Seðlabanki Íslands fjármálafyrirtækjum reglulega lausafjárfyrirgreiðslu í formi lána gegn veði. Veð sem fjármálafyrirtæki leggja fram þurfa að uppfylla skilyrði reglna Seðlabankans um viðskipti við þau. Þær eru áþekkar reglum annarra seðlabanka. Meðal skuldabréfa sem uppfylla skilyrði reglnanna eru ríkisskuldabréf og bréf fjármálafyrirtækja sem uppfylla skilgreindar lágmarkskröfur, svo sem um lánshæfi.
Eins og aðrir seðlabankar leitaðist Seðlabanki Íslands með fyrirgreiðslu sinni við að auðvelda starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja í þeirri fjármálakreppu sem riðið hefur yfir heiminn. Seðlabankinn fylgdi í því efni fordæmi annarra seðlabanka og jók fyrirgreiðslu sína og þar með áhættu. Hann gekk þó ekki jafn langt og þeir seðlabankar sem lengst gengu.
Við stofnun nýrra banka um rekstur innlendrar viðskiptabankastarfsemi eftir að þrír bankar komust í þrot færðust innlend innlán til þeirra. Þá kom til álita að skuldir vegna verðbréfa sem veðsett voru Seðlabankanum færðust einnig þangað til að treysta áframhald innlendrar bankastarfsemi. Við nánari skoðun Fjármálaeftirlits og forsvarsmanna ríkissjóðs, í samráði við lögfræðilega ráðgjafa, innlenda sem erlenda, þótti rétt að öll skuldabréf útgefin af gömlu bönkunum yrðu að svo stöddu þar eftir til þess að tryggja gagnsæi og að kröfuhöfum yrði ekki mismunað. Á þessu stigi er því ekki endanlega ákveðið hvað verður um framangreindar kröfur Seðlabankans og þá hvort og hve mikið verðbréf í eigu Seðlabankans kunna að falla í verði. Líkur eru þó á að Seðlabankinn fari ekki tjónlaus frá falli viðskiptabankanna þriggja enda hefði það verið nánast útilokað. Niðurstaða mun liggja fyrir þegar nefnd, sem metur eignir og skuldir nýju og gömlu bankanna, lýkur störfum. Hún er skipuð erlendum fagaðilum og fær liðsinni innlendra sérfræðinga. Með þeim hætti er kappkostað að matið verði hlutlaust og faglega unnið í hvívetna. Mikið er í húfi að endurheimt verði eins mikið af útistandandi kröfum og kostur er til þess að lágmarka tjón kröfuhafa bankanna.
Nr. 41/2008
21. október 2008