Stefnuyfirlýsing bankastjórnar Seðlabanka Íslands
Stefnuyfirlýsing bankastjórnar Seðlabanka Íslands
Brýnt að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og styrkja gengi krónunnar
Gengi krónunnar lækkaði skarpt í aðdraganda og kjölfar fjármálakreppunnar í október. Raungengi hennar er nú mun lægra en það hefur áður mælst og fær staðist til lengdar. Raungengið var í nóvember u.þ.b. þriðjungi undir meðaltali áranna frá 1980 og í lok mánaðarins líklega um 20% lægra en það hefur áður orðið lægst á þessu tímabili. Gengislækkunin leiðir til meiri verðbólgu og stefnir fjárhagslegri afkomu fjölmargra heimila og fyrirtækja í tvísýnu. Því er afar brýnt að ná stöðugleika í gengismálum á nýjan leik. Að því mun Seðlabankinn vinna.
Ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafa mótað stefnu sem miðar að því að koma á varanlegum stöðugleika í gengis- og efnahagsmálum. Haft var samráð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn við það verk. Stefnan er í meginatriðum þríþætt: Í fyrsta lagi aðhaldssöm peningastefna sem treystir stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og styrkingu krónunnar. Í annan stað ber að sýna varfærni í ríkisfjármálum. Ekki verður komist hjá tímabundnum halla vegna þess áfalls sem orðið er. Langtímastefna í ríkisfjármálum verður að miða að því að skulda- og greiðslubyrði verði viðráðanleg þrátt fyrir tekjutap og útgjaldaauka. Loks verður nauðsynleg endurreisn fjármálakerfisins að vera gagnsæ og lúta viðurkenndum leikreglum.
Til þess að undirbúa eðlileg gjaldeyrisviðskipti hækkaði Seðlabankinn stýrivexti í 18% hinn 28. október sl. í samræmi við samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Gjaldeyrishömlurnar sem nauðsynlegt var að beita tímabundið til þess að tryggja grunnstarfsemi í landinu verða afnumdar í áföngum. Tilmæli til fjármálafyrirtækja um takmörkun á sölu gjaldeyris hafa verið afturkölluð. Gjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnshreyfinga eru enn takmörkuð og skilaskylda á gjaldeyri tekin upp. Gerð er nánari grein fyrir þessu í sérstakri frétt sem bankinn gaf út í dag. Gjaldeyrishömlum vegna fjármagnshreyfinga verður létt af eins fljótt og aðstæður leyfa.
Umtalsverður hluti verðbréfa sem gefin hafa verið út í íslenskum krónum eru í eigu erlendra fjárfesta. Með því að aflétta hömlum á fjármagnshreyfingar í áföngum er hægt að vinda skipulega ofan af stöðutöku þeirra þegar ytri jöfnuður þjóðarbúsins gerir það mögulegt án mikilla áhrifa á gengi krónunnar. Það er sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar og hinna erlendu fjárfesta.
Með útboðum sem fyrirhuguð eru á ríkisskuldabréfum snemma í desember og nýjum aðalmiðlarasamningum er lífi blásið í innlendan skuldabréfamarkað.
Gjaldeyrisforði Seðlabankans eflist verulega með lánveitingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá hafa gjaldeyrisskiptasamningar Seðlabanka Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar verið endurnýjaðir til ársloka 2009. Einnig bætast við lánveitingar Færeyja, Póllands, Rússlands og norrænu ríkjanna. Öflugur forði skapar ásamt öðru forsendur fyrir hækkandi gengi krónunnar.
Ekki er útilokað að gengi krónunnar lækki fyrst í stað eftir að hömlur á almenn gjaldeyrisviðskipti verða afnumdar. Líkur standa til að slík lækkun standi stutt. Undirliggjandi efnahagsþróun mun styðja við gengi krónunnar. Þegar innlend eftirspurn dregst saman minnkar innflutningur og afgangur verður á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd. Þegar er orðinn afgangur á vöruviðskiptum við útlönd og viðskiptahalli hverfur hratt.
Af framangreindum ástæðum er ekki fyrirfram gert ráð fyrir að Seðlabankinn þurfi að grípa til aðgerða vegna þróunar gengisins, hvorki með hærri vöxtum né sölu gjaldeyris. Það er þó ekki útilokað. Bankinn mun gæta strangs aðhalds í lánveitingum til bankakerfisins þar til tekist hefur að skapa traust á gjaldeyrismarkaði.
Sterkara gengi og vaxandi framleiðsluslaki munu leiða til hjöðnunar verðbólgu og lækkunar stýrivaxta. Samkvæmt spám Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dregur hratt úr verðbólgu á næsta ári og verður tólf mánaða hækkun verðlags komin undir 5% í lok ársins.
Nr. 47/2008
28. nóvember 2008