logo-for-printing

06. janúar 2011

Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands gera með sér nýjan og markvissari samstarfssamning

Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands hafa gert með sér nýjan samstarfssamning, sem kveður á um markvissara samstarf en eldri samningur. Markmið samningsins er að stuðla að heilbrigðu, virku og öruggu fjármálakerfi í landinu, þar með talið greiðslu- og uppgjörskerfum. Mælt er fyrir um að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands skuli gera með sér samstarfssamning, annars vegar í 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 og hins vegar í 15. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998.

Í samningnum er lögð áhersla á að til að fjármálakerfi í landinu sé heilbrigt, virkt og öruggt þurfi að skilgreina með skýrum hætti ábyrgð hvorrar stofnunar og verkaskiptingu þeirra á milli. Ekki sé síður mikilvægt að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands vinni náið saman að skilgreindum verkefnum og að öflun og miðlun upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum og milli stofnananna sé markviss. Þá skuli greining á stöðugleika draga upp skýra mynd af styrkleika og veikleika fjármálafyrirtækja og getu þeirra til að bregðast við breytingum í hinu þjóðhagslega umhverfi og á innlendum sem erlendum mörkuðum. Vinna stofnananna þurfi að miða að því að draga úr kerfislegri áhættu. Enn fremur er það markmið samstarfssamningsins að sjá til þess að til reiðu séu samhæfðar viðbúnaðaráætlanir og að reglulega sé metið hve vel lög og reglur þjóni markmiðum um stöðugleika fjármálakerfisins.

Meðal helstu nýmæla í samningnum má nefna að samkvæmt honum halda forstjóri Fjármálaeftirlitsins og seðlabankastjóri fundi að minnsta kosti tvisvar á ári, ásamt helstu sérfræðingum beggja stofnana, þar sem lagt er mat á kerfislega áhættu í íslenska fjármálakerfinu. Dagskrá fundanna spannar meðal annars þjóðhagslega þætti, áhættur í starfsemi fjármálafyrirtækja, samspil áhættuþátta, bæði innan fjármálakerfisins og milli þess og þjóðarbúsins, stöðu greiðslukerfa, lög og reglur um fjármálastarfsemi og endurbætur á viðlagaáætlunum. Fyrir þessa fundi tekur hvor stofnun saman yfirlit yfir stöðu áhættuþátta sem hún hefur eftirlit með. Í þeim tilvikum sem ábyrgð skarast er sameiginlegum áhættumatshópum falið þetta verkefni. Meðal annarra nýmæla sem má nefna í samstarfssamningnum er að áformað er að innleiða endurbætta framkvæmd við öflun og gagnkvæma miðlun upplýsinga stofnananna. Þá er stefnt að sameiginlegum gagnagrunni Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans með aðgangsstýringu.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir samning Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins mjög mikilvægan. „Samningurinn skapar forsendur til að bæta þá vinnu sem á sér stað við að greina áhættu í fjármálakerfinu og stuðlar þannig að stöðugleika þess. Í því sambandi er einnig litið til þeirrar framþróunar sem nú á sér stað á alþjóðlegum vettvangi hvað þetta varðar. Í þeim erfiðleikum í fjármálakerfinu sem við og ýmsar aðrar þjóðir höfum glímt við síðustu ár hefur komið í ljós að samstarf fjármálaeftirlita og seðlabanka hefði mátt vera nánara. Nýi samningurinn er afar mikilvægt skref til að bæta úr því og verður vart lengra gengið innan núverandi lagaramma.“

Gunnar Þ. Andersen forstjóri Fjármálaeftirlitsins segir að það sé afar mikilvægt að streymi upplýsinga sé gott milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans enda séu upplýsingar frá hvorri stofnun fyrir sig innlegg í greiningar hinnar. „Til þess að meta stöðu og líklegar framtíðarhorfur íslenskra eftirlitsskyldra aðila þarf Fjármálaeftirlitið meðal annars að mynda sér skoðun á efnahagslegri hæfni á grunni greiningar á þjóðhagslegum stærðum og spá um þróun þeirra. Þessa greiningu sækir Fjármálaeftirlitið til Seðlabankans.“

Samstarfssamninginn í heild má sjá hér (pdf)

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.

Nr. 3/2010
6. janúar 2011

Til baka