logo-for-printing

29. júní 2012

Ársfundur Alþjóðagreiðslubankans

Ársfundur Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss var haldinn 24. júní síðastliðinn. Alþjóðagreiðslubankinn er hlutafélag í eigu 60 seðlabanka. Bankinn er vettvangur alþjóðlegs samstarfs seðlabanka, auk þess að vera rannsóknarsetur og banki fyrir seðlabanka heimsins. Á fundinum var lögð fram ársskýrsla bankans en í henni er auk reikninga bankans greinargerð um ástandið í heimsbúskapnum og fjallað er um þau viðfangsefni sem helst snúa að seðlabönkum. Að þessu sinni eru í skýrslunni m.a. sérstakir kaflar um leiðir út úr efnahagsvanda heimsins, um takmarkanir peningastefnu, leiðir að sjálfbærum ríkisfjármálum og þróun bankakerfis eftir fjármálakreppuna.

Á fundinum flutti Jaime Caruana, aðalframkvæmdastjóri Alþjóðagreiðslubankans, ræðu sem byggðist á efni skýrslunnar, en heiti ræðunnar var: Það er tími til kominn að ráðast að rótum vandans (e. It´s time to address the root causes).

Reikningar Alþjóðagreiðslubankans eru gerðir upp í sérstökum dráttarréttindum (SDR). Á síðasta reikningsári, sem lauk 31. mars 2012, nam hreinn hagnaður bankans 758,9 milljónum SDR. Á ársfundinum var ákveðið að greiða arð sem nemur 305 SDR á hlut. Þar sem Seðlabanki Íslands á 1000 hluti í bankanum fær hann greiddan arð sem nemur 58,2 milljónum króna.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti ársfund Alþjóðagreiðslubankans og ráðstefnu sem haldin var dagana fyrir fundinn. Í sömu ferð hélt hann erindi á málstofu Danske Bank um peningastefnu á Íslandi fyrir og eftir hrun. Þá tók hann við sama tækifæri þátt í pallborðsumræðum um núverandi áskoranir við framkvæmd peningastefnu ásamt Nils Bernstein, seðlabankastjóra Danmerkur og Tuomas Välimäki, framkvæmdastjóra peningamálaaðgerða hjá Finnlandsbanka. Lars Christensen, yfirmaður nýmarkaðsgreiningardeildar Danske Bank stýrði umræðum.

Eftir ársfund Alþjóðagreiðslubankans tók seðlabankastjóri þátt í pallborðsumræðum um fjármálakreppuna í Evrópu og hagkerfið í Ísrael á vegum Eli Hurvitz-ráðstefnunnar um efnahagslíf og samfélag, en ráðstefnan fór fram í Masada við Dauðahafið í Ísrael. Stanley Fischer, seðlabankastjóri í Ísrael, stjórnaði pallborðsumræðum, en auk Fischers og Más tók Erkki Liikanen, seðlabankastjóri Finnlands, þátt í umræðunum. Inngangsorð Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á þeirri ráðstefnu má finna hér á vef Seðlabanka Íslands.


Nánari upplýsingar veitir Stefán Jóhann Stefánsson ritstjóri á skrifstofu bankastjóra í síma 569-9600.

 

Nr. 25/2012
29. júní 2012 

 
Meðfylgjandi eru veftengingar í skjöl sem tengjast efni fréttarinnar:

Ársskýrsla Alþjóðagreiðslubankans.

Ræða bankastjóra Alþjóðagreiðslubankans

Kynningarefni Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á málstofu Danske Bank um peningastefnu á Íslandi (pdf)

Inngangsorð Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á Eli Hurvitz-ráðstefnu um fjármálakreppuna í Evrópu og hagkerfið í Ísrael (e. Iceland's crisis and recovery and the crisis in the eurozone). pdf

 

Til baka