logo-for-printing

13. nóvember 2018

Í tilefni af dómi Hæstaréttar í máli Samherja hf. gegn Seðlabanka Íslands

Skjaldarmerki

Hinn 8. þessa mánaðar staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Samherja hf. gegn Seðlabanka Íslands, en í málinu krafðist Samherji hf. ógildingar á ákvörðun Seðlabankans um greiðslu sektar að fjárhæð 15.000.000 kr. vegna brota gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál sem mæla fyrir um skilaskyldu erlends gjaldeyris. Um var að ræða lítinn hluta af meintum brotum sem Seðlabankinn kærði til embættis sérstaks saksóknara á árinu 2013 og sem embættið hafði endursent bankanum til meðferðar. Var það niðurstaða héraðsdóms, sem Hæstiréttur hefur nú staðfest, að Samherji hf. hefði mátt binda réttmætar væntingar við að málið hefði verið látið niður falla með vísan til bréfasamskipta félagsins og Seðlabankans um stöðu málsins á meðan það var í meðförum hjá embætti sérstaks saksóknara, sem yrði þannig jafnað til bindandi stjórnvaldsákvörðunar um niðurfellingu þess. Í dóminum var ekki tekin afstaða til annarra málsástæðna, þar með talið meintrar brotlegrar háttsemi.

Í ljósi fréttaumfjöllunar um málið telur Seðlabankinn rétt að koma á framfæri frekari skýringum um staðreyndir málsins. Samkvæmt lögum um gjaldeyrismál þá ber Seðlabankanum að kæra grun um meiriháttar brot til lögreglu en hefur heimildir til að sekta í öðrum málum. Í samræmi við þá skyldu sem hvíldi á Seðlabankanum beindi hann kæru til embættis sérstaks saksóknara hinn 10. apríl 2013 vegna meintra brota Samherja hf. og tengdra aðila á lögum um gjaldeyrismál og reglum samkvæmt þeim. Embætti sérstaks saksóknara endursendi málið hinn 23. ágúst 2013 til Seðlabankans þegar í ljós kom að lögaðilar gætu ekki borið refsiábyrgð á brotum á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Þessir annmarkar á lögunum, sem fyrst komu í ljós við meðferð þessa máls, höfðu víðtæk áhrif þar sem sambærilegir annmarkar voru á annarri löggjöf á fjármálamarkaði allt frá árinu 2007. Löggjafinn hefur nú lagfært umrædda annmarka.

Í kjölfarið beindi Seðlabankinn kæru hinn 9. september 2013 til embættis sérstaks saksóknara sem beindist að fyrirsvarsmönnum Samherja hf. og tengdra aðila og varðaði kæran í meginatriðum sömu sakarefni og fyrri kæra bankans. Málið var til rannsóknar hjá embættinu í tvö ár og var síðan fellt niður sem sakamál og endursent bankanum hinn 4. september 2015 til meðferðar og ákvörðunar, þar sem eftir stóðu heimildir bankans til álagningar stjórnvaldssekta á hendur lögaðilum, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Embættið benti jafnframt á annmarka sem urðu við setningu reglna nr. 1130/2008, um gjaldeyrismál, þar sem formlegt samþykki ráðherra skorti. Ljóst er að þessir annmarkar sem urðu við setningu reglnanna í desember 2008 og komu í ljós eftir að málið var kært í seinna skiptið hafa haft áhrif á mál sem vörðuðu meint brot á gildistíma reglnanna. Seðlabankinn tók í kjölfarið málið til meðferðar og felldi niður mestan hluta þess hinn 30. mars 2016, m.a. vegna áðurnefndra annmarka við setningu reglna nr. 1130/2008. Bankinn tók lítinn hluta málsins, sem nú taldist minniháttar, til áframhaldandi stjórnsýslumeðferðar og ákvarðaði sekt hinn 1. september 2016 vegna brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál um skilaskyldu erlends gjaldeyris. Það var meðal annars gert á grundvelli jafnræðissjónarmiða vegna annarra sambærilegra mála sem áður hafði verið lokið með stjórnvaldssekt.

Í niðurstöðu héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti 8. þessa mánaðar kom fram að embætti sérstaks saksóknara hafi ekki talið efni til að vísa kærunni frá á grundvelli laga um meðferð sakamála og að af því mætti ráða að það væri ekki mat sérstaks saksóknara að efnisatriði kærunnar væru á engum rökum reist. Endursendi því sérstakur saksóknari málið í heild sinni til Seðlabankans til meðferðar og ákvörðunar með vísan til laga um gjaldeyrismál.

Seðlabankinn leit á meðferð málsins hjá Seðlabankanum og embætti sérstaks saksóknara sem samfellda og heildstæða þar sem sömu meintu brot voru til rannsóknar. Var það í samræmi við lögfræðiálit sem bankinn aflaði og skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands um úttekt á stjórnsýslu bankans við framkvæmd laga um gjaldeyrismál, sem laut m.a. að þessu tiltekna máli. Vegna framangreinds taldi Seðlabankinn því rétt að fá úr álitaefninu skorið fyrir Hæstarétti. Endanleg niðurstaða dómstóla liggur nú fyrir og mun Seðlabankinn meta verklag vegna málsmeðferðar innan bankans í kjölfar dómsins í tilvikum sem þessum.

Til baka