logo-for-printing

23. september 2020

Yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar 23. september 2020

Fjármálastöðugleikanefnd. Efri röð frá vinstri: Tómas Brynjólfsson, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kristján Tómasson og Axel Hall. Neðri röð frá vinstri: Rannveig Sigurðardóttir, Ásgeir Jónsson, Gunnar Jakobsson og Unnur Gunnarsdóttir.

Baráttan við farsóttina er langdregnari en vonir voru bundnar við sem eykur óvissu og hefur neikvæð áhrif á útlánasöfn fjármálafyrirtækja. Mikilvægt er að fjármálafyrirtæki vinni markvisst að endurskipulagningu útlána og nýti það svigrúm sem aðgerðir Seðlabankans og stjórnvalda hafa skapað til að styðja við heimili og fyrirtæki.

Eiginfjár- og lausafjárstaða stóru bankanna þriggja er sterk. Aðgerðir Seðlabankans hafa rýmkað verulega aðgengi þeirra að lausu fé og vaxtaálag á erlendum lánsfjármörkuðum hefur lækkað. Bankarnir hafa því greiðan aðgang að lausu fé bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum. Þeir eiga því að búa yfir miklum viðnámsþrótti til að takast á við afleiðingar farsóttarinnar.

Lágvaxtaumhverfi skapar nýjar áskoranir fyrir starfsemi lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja. Lífeyrissjóðir eru ráðandi þátttakendur á innlendum fjármálamarkaði og því er þörf á að skoða frekar umgjörð og áhættu tengda þeim.

Fjármálastöðugleikanefnd skal ársfjórðungslega ákveða gildi á sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki. Í samræmi við yfirlýsingu nefndarinnar frá 18. mars sl. hefur nefndin ákveðið að halda aukanum óbreyttum næstu 6 mánuði.

Slökun á taumhaldi peningastefnunnar hefur stutt við fjármálastöðugleika við núverandi aðstæður.

Nefndin ítrekar að hún er reiðubúin að beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi.

Nr. 33/2020
23. september 2020

Minnisblað Seðlabanka Íslands til fjármálastöðugleikanefndar 17. september 2020: Bakgrunnur ákvörðunar um sveiflujöfnunarauka.


Til baka