logo-for-printing

06.10.2012

Grein Þórarins G. Péturssonar um efnahagshorfur í miðri fjármálakreppu í Fréttablaðinu 6. október 2012

Efnahagshorfur í miðri fjármálakreppu

Bankar eru ekki eins og venjuleg fyrirtæki.Bankar eru ekki eins og venjuleg fyrirtæki. Í vissum skilningi eru þeir eins og æðakerfi efnahagsbúskaparins þar sem um þá rennur lífsblóð sparnaðar til heimila, fyrirtækja og stofnana. Um leið eru þeir skuldsettari og háðari skammtímafjármögnun en hefðbundin fyrirtæki. Þeir eru því hvort tveggja í senn, mikilvægir og viðkvæmir. Það er aldrei eins skýrt og í bankakreppu: þá hættir bankakerfið að geta sinnt hlutverki sínu, greiðslumiðlun hagkerfisins truflast, fyrirtæki skortir ráðstöfunarfé til hefðbundins reksturs og til fjárfestingar og fjárhagur heimila versnar. Í kjölfarið fylgir því jafnan verulegur efnahagssamdráttur þar sem framleiðsla dregst saman og störf tapast.

Íslenska bankahrunið verður líklega talið ein alvarlegasta bankakreppa heimssögunnar, enda einstakt að nánast allir bankar í tilteknu landi verði gjaldþrota á u.þ.b. sama tíma. Vandinn sem við blasti snemma í októbermánuði 2008 var því alvarlegur og sá möguleiki blasti við að ekkert starfandi bankakerfi yrði til staðar.

Fjármálakreppan hófst þó í reynd fyrr, því að í upphafi ársins hafði skollið á gjaldeyriskreppa þar sem innflæði gjaldeyris til innlendra einkaaðila stöðvaðist og snerist í stórfellt útflæði sem leiddi til helmingslækkunar gengis krónunnar. Á haustmánuðum hafði traust til alls sem íslenskt var brostið og fyrirtæki stóðu allt í einu frammi fyrir því að þurfa að fyrirfram- eða staðgreiða vörur sem áður höfðu fengist með eðlilegum greiðsluskilmálum. Greiðslumiðlun gagnvart útlöndum var því í uppnámi og raunveruleg hætta á að skortur yrði á nauðsynjavörum og aðföngum frá útlöndum.

Vandinn sem blasti við veturinn 2008 var því ógnvænlegur. Sem betur fer tókst hins vegar að afstýra því að hið versta gerðist, m.a. með aðstoð frá alþjóðasamfélaginu. Þótt erlend greiðslumiðlun hefði laskast tókst að tryggja starfsemi endurreists innlends bankakerfis og greiðslumiðlun og fall krónunnar var stöðvað. Smám saman tókst að ná tökum á opinberum fjármálum (sem fjármálakreppan hafði leikið illa) og stuðla að því að verðbólga hjaðnaði á ný. Hins vegar var ógerlegt að koma í veg fyrir mikinn samdrátt í kjölfarið, enda endurspeglaði hann óhjákvæmilega aðlögun þjóðarbúsins í kjölfar ofþenslu áranna á undan, eins og Seðlabankinn hafði raunar ítrekað spáð árin á undan.

Í upphafi var ekki auðvelt að átta sig á því hve alvarlegur efnahagssamdrátturinn yrði, enda á fáu að byggja í ljósi umfangs banka- og gjaldeyriskreppunnar. Fjöldi rannsókna gaf þó til kynna að vænta mætti harkalegs efnahagssamdráttar í kjölfar slíkrar „tvíburakreppu“.

Strax í nóvember 2008 reiknaði Seðlabankinn með því að landsframleiðslan myndi dragast saman um samtals 10% árin 2009 og 2010 en að viðsnúningur yrði um mitt ár 2010 og hagvöxtur ársins 2011 yrði rétt yfir 3%. Þrátt fyrir mikla óvissu veturinn 2008 og þá staðreynd að alþjóðleg efnahagsþróun hafi reynst mun óhagstæðari en þá var reiknað með og verri en í mörgum fyrri kreppum, virðist mat Seðlabankans á efnahagsframvindunni í kjölfar kreppunnar hafa gengið eftir: miðað við nýjustu tölur Hagstofu Íslands varð samdrátturinn 2009 og 2010 samtals rétt yfir 10%, efnahagsbatinn hófst um mitt ár 2010 og hagvöxtur í fyrra var tæplega 3%. Þessi þróun er í ágætu samræmi við reynslu annarra ríkja af alvarlegum fjármálakreppum. Hefur reynsla Íslands orðið tilefni nokkurrar umfjöllunar á alþjóðavettvangi í ljósi þess hve umfangsmikið áfallið var. Horfur eru þó enn óljósar, ekki síst vegna ástandsins í Evrópu. Mestu skiptir að haldið sé áfram að undirbyggja efnahagsbatann með agaðri hagstjórn, svo fyrri árangri verði ekki glutrað niður.

 

Grein þessi var innlegg Þórarins G. Péturssonar í samantekt Fréttablaðsins í tilefni af því að fjögur ár voru liðin frá efnahagshruni. Greinin birtist á síðu 24 í Fréttablaðinu.

Til baka